top of page
Search

Fjárhagsleg úrræði

Þolendur raka og myglu og annars umhverfisáreitis bera sjálfir kostnað af þeim læknisfræðilegu úrræðum sem þeir sækja sér sem og öðrum úrræðum er tengjast uppbyggingu heilsunnar.


Ef myglusveppur hefur fengið að grassera í vistarverum þínum um tíma, er viðbúið að húsmunir, föt, innréttingar og annað innbú sé mengað.


Myglusveppir framleiða myglugró sem eru ósýnileg með berum augum og geta mjög auðveldlega borist í ýmsa innanstokksmuni ásamt sveppahlutum og afleiðum. Það getur verið afar erfitt að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að losa sig meira og minna við allt innbú, fatnað og persónulega muni og jafnvel standa uppi allslaus. Ákvörðun sem þessi er einstaklega þung fjárhagsleg byrði að bera og reynist flestum mikill persónulegur harmur.


Samtökin mæla með því að þeir sem hafa veikst alvarlega af umhverfisáreiti í raka og mygluskemmdu húsnæði, leyfi heilsunni að njóta vafans og pakki öllu því sem þeir fá ekki af sér að farga, í plastkassa eftir hreinsun og geymi í tiltekinn tíma þar til heilsan er orðin betri.

Ef einkenni gera strax vart við sig og plastkassinn er opnaður er ljóst að hlutinn þarf að hreinsa aftur, pakka niður á ný og freista þess að geyma hann þar til mótstaða líkamans er orðin meiri.


Ef hluturinn hefur persónulegt gildi mælum við alltaf með að geyma hann fyrst um sinn, jafnvel í nokkur ár og athuga svo aftur með þolmörkin þegar búið er að byggja upp heilsu á ný. Mikilvægast er að taka ekki of afdrifaríkar ákvarðanir, mitt í miklum heilsubresti, heldur finna eins skynsamlega leið og hægt er til að forðast áreitið og setja heilsuna í fyrsta sæti!

Því miður hafa ekki mörg tryggingarfélög viðurkennt bótaskyldu á menguðum búslóðum eða tekið á þeim málum af einurð og festu en þó hafa nokkur dómsmál fallið sem hafa leitt til jákvæðra niðurstaðna fyrir þolendur. Oft beita tryggingarfélögin þeim rökum að mengaða innanstokksmuni megi hreinsa og því þurfi ekki að bæta þá. Við sem lent höfum í umhverfisáreiti af völdum raka og myglu erum reynslunni ríkari og vitum að því miður er það ekki alltaf raunin. Við höfum mörg hver eytt miklum fjármunum og tíma í að reyna að þrífa föt, textíl, sófa, stofuborð, stóla, málverk, myndir, bækur, leikföng og aðrar eigur. Því miður hefur öll þessi vinna og fjárútlát of oft verið til einskis því enn finnum við fyrir einkennum við að hafa þessa hluti í návígi við okkur.


Hér þarf þekkingin að vera meiri. Hver þolandinn á fætur öðrum er sem sagt enn að berjast fyrir því að fá viðurkennt að innanstokksmunir geti mengast og mengunina sé jafnvel ekki hægt að hreinsa í burtu. Baráttan fyrir skilningi reynir á þolrifin og oft fylgja miklar tilfinningar persónulegum munum sem erfitt getur reynst að meta tjón á. Við í samtökunum SUM erum þó hvergi nærri búin að gefa upp alla von og trúum að með aukinni fræðslu og vitund munum við smám saman ná eyrum þeirra sem halda um pyngjuna.


Í einhverjum tilfellum hafa þolendur fengið niðurfellingu á hluta skattaálagningar vegna búslóðarmissis. Í þeim tilfellum hefur þurft að sýna fram á myndir af hverjum hlut og verðígildi hans sem og kvittanir fyrir hverju því sem keypt hefur verið í staðinn. Að fara í gegnum slíkt mat hjá skattheimtunni hefur kostað þolendur mikla þolinmæði, lögfræðiaðstoð, endurteknar bréfaskriftir og kærur til yfirskattanefndar. Í þeim tilfellum sem eitthvað hefur komið út úr slíkri fyrirhöfn hefur aðeins fengist brotabrot af tjónakostnaðinum til baka í formi niðurfelldrar skattaálagningar.


Varðandi viðgerðir á húsnæði vegna rakaskemmda, þá bæta tryggingar ekki tjón vegna utanaðkomandi leka eða vanrækslu á viðhaldi eigna. Í þeim tilfellum þar sem rör fara í sundur eða skyndilegt og óvænt tjón á sér stað, hafa tryggingar bætt tjón eftir atvikum.


Í þeim tilfellum þar sem rakaskemmdir uppgötvast við eða stuttu eftir kaup á húsnæði ber fasteignasala að reyna að miðla málum á milli kaupanda og seljanda. Sú regla að fari sannanlegur ágalli yfir 10% af verðmæti eignarinnar, megi rifta kaupum eða lækka kaupverð sem því nemur, er aðeins þumalputtaregla en ekki lagaákvæði sem seljanda ber skilyrðislaust að lúta. Þegar um kaup á nýbyggingu er að ræða skal gæta þess að trygging byggingstjóra falli ekki úr gildi á meðan tekist er á um málið.


Fari mál í lögfræðing og síðan fyrir dómstóla getur það tekið langan tíma í kerfinu og ekki á vísan að róa með niðurstöðuna. Á meðan bíður eignin viðgerða og heldur áfram að tapa raunverulegu verðgildi sínu.

Dómsmál sem þessi eru jafnan dýr í rekstri og geta tekið verulega á andlega heilsu þolenda sem jafnframt eru á sama tíma að reyna að ná heilsu sinni til baka. Samkomulag eða dómssátt á milli kaupanda og seljanda hefur því reynst algengasta niðurstaðan.


Heimilistryggingar innihalda margar hverjar ákvæði um greiddan lögfræðikostnað í dómsmálum og málum sem enda með dómssátt. Þeir þolendur sem eru með lágar tekjur geta átt rétt á gjafasókn í máli sínu.






Comentarios


bottom of page